logo-for-printing

27. febrúar 2009

Lög nr. 5/2009 um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Nýr bankastjóri og aðstoðarbankastjóri

Lög nr. 5/2009 um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands voru samþykkt á Alþingi í gær.

Lögin fela í sér að í stað bankastjórnar sem skipuð er þremur bankastjórum verður einn seðlabankastjóri og einn aðstoðarseðlabankastjóri.

Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum verða framvegis teknar af peningastefnunefnd. Stjórn bankans er að öðru leyti í höndum seðlabankastjóra.

Við gildistöku laga þessara er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar.

Forsætisráðherra hefur samkvæmt lögunum ákveðið að setja Svein Harald Øygard tímabundið í embætti seðlabankastjóra og Arnór Sighvatsson aðalhagfræðing Seðlabankans tímabundið í embætti aðstoðarseðlabankastjóra. Settur seðlabankastjóri og settur aðstoðarseðlabankastjóri skulu gegna embætti þar til forsætisráðherra hefur skipað í stöðurnar á grundvelli auglýsinga samkvæmt ákvæðum laganna.

Meðfylgjandi er æviágrip fyrir Svein Harald Øygard:

Svein Harald Øygard, Cand. Oecon., er fæddur árið 1960 og hlaut meistarapróf í hagfræði frá Oslóar Háskóla árið 1985, með þjóðhagfræði sem aðalgrein.

Svein Harald var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs á árunum frá 1990 til 1994. Meðal ábyrgðarsviða hans voru þjóðhagfræði, samþætting stefnu í ríkisfjármálum og peningamálastefnu, löggjöf á fjármálasviði og skattamálefni. Hann leiddi m.a. endurskoðun skattalöggjafar í Noregi árið 1992 og sat í starfshópi norsku ríkisstjórnarinnar um hugsanleg efnahagsleg áhrif inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Svein Harald tók þátt í vinnu norskra stjórnvalda er þau tókust á við banka- og gjaldmiðilskreppuna þar í landi árið 1992. Hann sat í efnahagsráði norska Verkamannaflokksins til ársins 2000.

Á árunum 1983 til 1990 starfaði Svein Harald í fjármálaráðuneyti Noregs og fyrir Stórþingið, auk þess að starfa um skemmri tíma í seðlabanka Noregs. Í fjármálaráðuneytinu hafði hann yfirumsjón með verðbólgugreiningum og tengslum launa og verðlags við aðrar þjóðhagsstærðir.

Svein Harald hefur frá árinu 1995 starfað fyrir ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company víða í Evrópu, í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Asíu, Mið-Austurlöndum og Afríku og var framkvæmdastjóri McKinsey & Company í Noregi frá 2005 til 2007. Í starfi sínu hjá McKinsey & Company hefur Svein Harald einkum unnið að verkefnum og stefnumótun á sviði orku og iðnaðar, skipulagi opinberrar stjórnsýslu og verkefnum tengdum fjármálum.

Frétt nr. 5/2009

Til baka