logo-for-printing

05. desember 2008

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á þriðja ársfjórðungi 2008

Á heimasíðu Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2008 og um stöðu þjóðarbúsins í lok fjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 109,6 ma.kr. á þriðja fjórðungi ársins sem er talsvert lægra en á fjórðungnum á undan. Minni halli þáttatekna og á þjónustujöfnuði skýra þessa breytingu að mestu en aukinn halli af vöruviðskiptum vegur nokkuð á móti. Minna tap varð á beinni fjárfestingu Íslendinga erlendis (endurfjárfesting hagnaðar/taps) en vaxtakostnaður vegna erlendra skulda hækkaði.

Hreint fjárinnstreymi nam 166,8 ma.kr. á tímabilinu. Bein fjárfesting innlendra aðila erlendis jókst um 49 ma.kr. en bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi dróst saman um 18,8 ma.kr. og umtalsverður samdráttur var á verðbréfafjárfestingum erlendra aðila á Íslandi. Fjárinnstreymið stafar af sölu innlendra fjárfesta á erlendum skuldabréfum og af erlendum lántökum opinberra aðila.

Skekkjuliður í ársfjórðungsuppgjörinu er fremur stór og endurskoðun fjármagnshreyfinga á fyrri fjórðungum ársins dró lítið úr skekkjulið þess tíma. Vonir standa þó enn til að hann minnki með nánari upplýsingum við uppgjör ársins í heild. Reynslan er sú að neikvæður skekkjuliður skýrist oftast af vanmati á fjármagnshreyfingum, þótt hitt þekkist einnig að berist nákvæmar upplýsingar um viðskipti og tímasetningu þeirra berist með töluverðri töf.

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 2.302 ma.kr. í lok þriðja ársfjórðungs og versnaði um 184 ma.kr. á ársfjórðungnum. Þessi þróun stafar einkum af veikingu gengis krónunnar. Erlendar eignir námu 9.955 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 12.257 ma.kr.

Fréttin í heild með töflum (pdf-skjal)

 

Nr. 49/2008
5. desember 2008

Til baka