logo-for-printing

28. október 2008

Seðlabanki Íslands hækkar stýrivexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti bankans 15. þessa mánaðar í 12%. Sú ákvörðun var rökstudd með breyttum aðstæðum í íslenskum efnahagsbúskap. Samdráttur væri þegar orðinn nokkur og meiri framundan og eftirspurn og væntingar hefðu hríðfallið.

Í liðinni viku gerði ríkisstjórnin samkomulag við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í samkomulaginu, sem lagt verður fyrir framkvæmdastjórn hans til staðfestingar á næstu dögum, felst m.a. að Seðlabankinn skuli þá hafa hækkað stýrivexti í 18% sem nú hefur verið gert. Við þá ákvörðun er vísað til þess að við hrun bankakerfisins og harkalegar ytri aðgerðir sem í kjölfarið fylgdu lamaðist gjaldeyrismarkaður þjóðarinnar á svipstundu. Þótt aðstæður hafi síðan lagast nokkuð eru takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum óhjákvæmilegar.

Mikilvægt er að koma gjaldeyrisviðskiptum á ný í eðlilegt horf og styðja við gengi krónunnar. Þótt raungengið sé nú mun lægra en fær staðist til lengdar er talið óhjákvæmilegt að styrkja grundvöll krónunnar á gjaldeyrismarkaði með aðhaldssömu vaxtastigi þegar hömlur á gjaldeyrisviðskiptum verða afnumdar í áföngum. Neikvæðir raunvextir gætu veikt þann grundvöll. Samdráttur eftirspurnar mun leiða til þess að afgangur myndast fljótt á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Framleiðsluslaki og jafnvægi eða afgangur í utanríkisviðskiptum munu stuðla að hækkun á gengi krónunnar að því tilskildu að traust hafi skapast á gjaldeyrismarkaði. Gangi spár eftir verða stýrivextir lækkaðir í samræmi við hratt lækkandi verðbólgu.


Nr. 43/2008
28. október 2008

Til baka