logo-for-printing

11. september 2008

Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands: Stýrivextir Seðlabanka Íslands óbreyttir

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, þ.e. 15,5%.

Vísbendingar eru misvísandi um þessar mundir. Verðbólga jókst verulega í kjölfar gengislækkunar krónunnar á fyrstu mánuðum ársins. Hún hefur verið nokkru meiri að undanförnu en fólst í síðustu spá Seðlabankans. Enn standa líkur til þess að verðbólga sé nærri hámarki um þessar mundir og muni taka að hjaðna hratt á næsta ári. Gengi krónunnar er lægra en spár ætluðu í júlí og raungengi krónunnar er sögulega lágt. Þá sýna nýjar tölur meiri hagvöxt en reiknað var með. Því gæti hjöðnun verðbólgu orðið eitthvað hægari en gert var ráð fyrir í júlí. Aukin verðbólga og verðbólguvæntingar fela jafnframt í sér að raunstýrivextir hafa lækkað á undanförnum mánuðum. Á móti kemur að væntingavísitölur hafa lækkað verulega, aðgengi að lánsfé hefur þrengst og hækkuð vaxtaálög leggjast við aðhald peningastefnunnar.

Þjóðhagsreikningar sem birtir voru í morgun sýna að þrátt fyrir samdrátt einkaneyslu var umtalsverður hagvöxtur á öðrum fjórðungi ársins, einkum vegna vaxandi útflutnings. Hagvöxtur í fyrra og á fyrsta fjórðungi þessa árs var einnig meiri en áður var talið. Óvarlegt er að draga miklar ályktanir af upplýsingum um einn ársfjórðung. Þær eru hins vegar í samræmi við þekktar vísbendingar. Vinnumarkaðskönnun fyrir annan fjórðung ársins sýndi þannig drjúgan vöxt atvinnu frá fyrra ári og atvinnuleysi mælist vart, þótt nokkuð hafi verið um uppsagnir.
Seðlabankinn telur að líkur séu á nokkrum samdrætti landsframleiðslu á næstu tveimur árum þótt meiri þróttur virðist hafa verið í efnahagslífinu fram á mitt þetta ár en spáð var. Samdráttur er óumflýjanlegur hluti aðlögunar þjóðarbúsins að jafnvægi eftir kröftugt hagvaxtarskeið og mun auðvelda Seðlabankanum að koma böndum á verðbólgu. Aðgerðir til þess að örva efnahagslífið nú, hvort heldur með minna aðhaldi í peninga- eða ríkisfjármálum, eru ótímabærar. Þær myndu tefja óhjákvæmilega aðlögun þjóðarbúskaparins að jafnvægi, veikja gengi krónunnar og stuðla að meiri verðbólgu og hærri verðbólguvæntingum. Að endingu leiðir slík stefna einnig til meiri samdráttar í þjóðarbúskapnum. Hún veikir jafnframt efnahag skuldsettra heimila og fyrirtækja og grefur undan fjármálalegum stöðugleika. Mikilvægt er að ríkisfjármálastefnan vinni með peningamálastefnunni að því að draga úr verðbólgu og stuðla að innra og ytra jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Undanfarin misseri hefur Seðlabankinn í samvinnu við ríkisstjórnina unnið að því að auka traust á fjármálakerfið og virkni markaða. Auk skiptasamninga við norræna seðlabanka, útgáfu innstæðubréfa og aukinnar útgáfu ríkissjóðs á ríkisbréfum hefur gjaldeyrisforðinn verið stækkaður umtalsvert. Lánsfjármarkaðir heimsins eru í mikilli lægð og varúðarálög almennt há vegna tortryggni sem ríkir. Óráðlegt er og ástæðulaust fyrir skuldlausan ríkissjóð að sætta sig við óeðlileg kjör við óvenjulegar markaðsaðstæður. Því hefur stækkun gjaldeyrisforða Seðlabankans átt sér stað í skynsamlegum áföngum. Þá hefur Seðlabankinn fært reglur sínar um veðlánaviðskipti við fjármálafyrirtæki nær því sem gildir í Seðlabanka Evrópu. Áfram verður unnið að því að treysta innviði fjármálakerfisins.

Nauðsynlegt er að stýrivextir verði háir uns verðbólga er örugglega tekin að minnka og verðbólguvæntingar að hjaðna í átt að markmiði. Afsláttur á þeirri stefnu yrði öllum til bölvunar bæði í bráð og lengd. Peningastefnan verður að veita það aðhald sem nauðsynlegt er til þess að draga úr verðbólgu og verðbólguvæntingum. Víxláhrif launa, verðlags og gengis eru þekktur drifkraftur verðbólgu hér á landi. Samstaða aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um að styðja Seðlabankann í að vinna bug á verðbólgu mun flýta fyrir lækkun stýrivaxta og traustum efnahagsbata og þar með treysta kaupmátt til lengri tíma litið.



Nr. 28/2008
11. september 2008

Til baka