logo-for-printing

22. maí 2008

Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands



Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands:

Stýrivextir Seðlabanka Íslands óbreyttir

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, þ.e. 15,5%.


Í kjölfar verulegrar lækkunar á gengi krónunnar á fyrstu þremur mánuðum ársins voru stýrivextir hækkaðir í tveimur áföngum um 1,75 prósentur undir lok mars og snemma í apríl. Sem vænta mátti leiddi gengislækkunin til þess að verðbólga jókst í apríl og hún gæti orðið meiri á næstu mánuðum en Seðlabankinn spáði í apríl sl. Aukinn innlendur kostnaður vegna gengislækkunar, erlendra verðhækkana og hækkunar launa mun ráða miklu um þessa framvindu. Í kjölfarið verða áhrif minnkandi framleiðsluspennu og eftirspurnar yfirsterkari og þá dregur úr þrýstingi á verðlag. Samkvæmt spá Seðlabankans sem birt var í Peningamálum í apríl sl. dregst innlend eftirspurn verulega saman á næstu árum og húsnæðismarkaðurinn kólnar. Merki um hið síðar nefnda hafa skýrst frá því í byrjun apríl og nú virðist einnig ótvírætt að tekið sé að draga úr vexti eftirspurnar. Hins vegar sjást enn ekki skýr merki um samdrátt á vinnumarkaði.

Afar brýnt er að aukin verðbólga til skamms tíma leiði ekki til víxlbreytinga launa, verðlags og gengis. Háum stýrivöxtum og öðrum aðgerðum Seðlabankans og annarra stjórnvalda, þ.m.t. aukin útgáfa ríkisbréfa, er ætlað að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði sem er mikilvæg forsenda þess að böndum verði komið á verðbólgu og verðbólguvæntingar. Gjaldmiðlaskiptasamningar Seðlabanka Íslands við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar höfðu jákvæð áhrif á fjármálamarkaði en þeir leysa ekki allan vanda sem við er að fást.

Ekki verður unnt að slaka á peningalegu aðhaldi fyrr en sýnt verður að verðbólga sé á undanhaldi enda fátt mikilvægara fyrir efnahag heimila og fyrirtækja en að sú þróun hefjist og verði hnökralítil. Vaxtaákvarðanir bankastjórnar Seðlabankans taka mið af því.

 

Nr. 19/2008
22. maí 2008

Til baka