logo-for-printing

14. september 2007

Viðtal við Ingimund Friðriksson seðlabankastjóra

Ingimundur Friðriksson

Morgunblaðið birti viðtal Grétars Júníusar Guðmundssonar blaðamanns við Ingimund Friðriksson seðlabankastjóra 13. september 2007. Í viðtalinu ræðir Ingimundur um vaxtaákvarðanir bankastjórnar Seðlabanka Íslands, upplýsingagjöf bankans, stöðu á mörkuðum og fleira.

Morgunblaðið hefur gefið leyfi sitt fyrir því að þetta viðtal verði birt í heild sinni hér á vef Seðlabanka Íslands. Sjá einnig vef Morgunblaðsins: mbl.is

Viðtalið er hér í heild sinni:

Brýn þörf á áframhaldandi aðhaldi

Ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síðustu viku að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum kom fáum á óvart. Ýmsir hafa hins vegar látið í ljós efasemdir um að vaxtaákvarðanir bankans virki.

 

Ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síðustu viku að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum kom fáum á óvart. Ýmsir hafa hins vegar látið í ljós efasemdir um að vaxtaákvarðanir bankans virki. Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri vísar þessu alfarið á bug og segir þvert móti að árangurinn hafi komið skýrt fram í hjöðnun verðbólgunnar. Grétar Júníus Guðmundsson ræddi meðal annars við hann um stýrivextina, óróann á fjármálamörkuðum og krónuna.

Bankastjórn Seðlabankans hefur lýst því yfir að um leið og forsendur skapast til þess að lækka stýrivexti bankans þá verði þeir lækkaðir, en ekki fyrr. Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri segir að stýrivextirnir hafi sannarlega bitið á verðbólguna. Rangt sé að halda öðru fram. „Ef Seðlabankinn hefði ekki beitt auknu aðhaldi þá er næsta víst að við byggjum við miklu meiri verðbólgu í dag, og þann usla og óróa sem því fylgdi,“ segir hann.

 

Stýrivextir Seðlabankans hafa verið óbreyttir, 13,3%, frá því í lok síðasta árs. Alls voru vextirnir hækkaðir sjö sinnum á síðasta ári um samtals 3,3 prósentustig. Frá því í maí árið 2004 hafa vextirnir hins vegar verið hækkaðir nítján sinnum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í viðtali við Morgunblaðið í lok síðasta mánaðar, að vaxtaákvarðanir Seðlabankans væru komnar í hreina sjálfheldu og bankinn sæi aldrei möguleika á að lækka vexti. Fleiri aðilar úr atvinnulífinu hafa tekið í svipaðan streng.

Ingimundur segist vera algjörlega ósammála þessu. „Verðbólgan var í hámarki, nálægt átta og hálfu prósenti, síðla sumars í fyrra,“ segir hann „Úr henni hefur dregið hægt og bítandi síðan þá, að vísu hægar en við hefðum kosið, en það er enginn efi í okkar huga að úr henni hefur dregið fyrst og fremst vegna þess aðhalds sem stafar frá peningamálunum. Við erum jafnframt ósammála því sjónarmiði að við séum í einhverri sjálfheldu og að aldrei verði hægt að lækka hér vexti.“

 

Breytt og bætt aðferðafræði

Að sögn Ingimundar hefur Seðlabankinn smám saman breytt aðferðum sínum við spágerð og bætt þær. Hann segir að síðast hafi mikilvægum áfanga í þeim efnum verið náð í mars sl. þegar bankinn hóf að birta stýrivaxtaferil samhliða verðbólguspá. Það hafi svo verið gert á ný í júlímánuði síðastliðnum. Þá hafi verið gert ráð fyrir því að Seðlabankinn gæti lækkað stýrivexti sína á fyrri helmingi næsta árs, sem sé reyndar seinkun frá spá bankans í mars. Breytingarnar á framkvæmd peningastefnunnar hafi mælst vel fyrir. Sértaklega hafi birtingu stýrivaxtaferilsins verið vel tekið og hún haft þau áhrif á væntingar á markaði sem Seðlabankinn sóttist eftir.

Þegar greint var frá vaxtaákvörðun bankastjórnar Seðlabankans í síðustu viku var sérstaklega tekið fram að hún sæi enga ástæðu til að hvika frá þeirri spá sem birt var í júlí. Ný verðbólgu- og þjóðhagsspá verður birt í Peningamálum í byrjun nóvember og um leið nýr stýrivaxtaferill.

 

Brýnast að ná jafnvægi

Ingimundur segir að túlka megi kröfur ýmissa aðila í atvinnulífinu, um að Seðlabankinn hefði fyrir löngu átt að hefja lækkunarferli stýrivaxta, á þann veg að þeir telji að bankinn hefði í raun átt að hleypa í gegn verðbólgu með því að beita ekki peningalegu aðhaldi. Ekki sé hægt að hafa hemil á slíkri þróun og skrúfa frá verðbólgunni og fyrir hana eftir hentugleikum hvað þá verðbólguvæntingum. Framvinda síðustu missera sýnir svo ekki verður um villst hve erfitt getur reynst að ná tökum á verðbólgu sem farið hefur úr böndum.

„Brýnasta verkefnið í efnahagsstjórninni hér á landi er að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum og að því þarf að róa öllum árum. Þetta er hagsmunamál allra. Verðbólga er vond. Hún fer illa með efnahag heimila sem skulda mikið í verðtryggðum lánum og veldur usla í atvinnurekstri. Auðvitað siglum við vandasama siglingu með gríðarlegan viðskiptahalla og undirliggjandi verðbólgu sem er enn 5-6%, en það knýr á um að jafnvægi verði náð sem fyrst.“

Hann segir að til að ná árangri í baráttunni við verðbólguna sé þörf á áframhaldandi aðhaldi af hálfu Seðlabankans. Þá þurfi auðvitað áframhaldandi aðhald frá þeim sem fari með opinber fjármál, bæði ríkis og sveitarfélaga, og það þurfi líka aðgát á vinnumarkaði. Seðlabankinn hafi lýst því yfir að hann muni bregðast við verðbólguhorfum, hvort sem þær versna eða batna frá því sem verið hefur, og við það verði staðið.

„Það sem þarf nú er strangt aðhald á öllum sviðum efnahagsstjórnarinnar. Við höfum beitt því í peningamálum og reyndar vakið athygli á því, nú síðast í síðustu viku, að ákveðnir hnökrar eru enn á miðlunarferlinu sem gera það að verkum að peningastefnan skilar sér ekki af fullum þunga, sérstaklega ekki á langa enda skuldabréfamarkaðarins. Þeir hnökrar eru fyrst og fremst í fyrirkomulagi fasteignaveðlána. Á því er brýnt að taka til að gera Seðlabankanum kleift að hafa þau áhrif sem hann þarf að hafa. Á meðan vaxtahækkanir slá ekki út á þeim enda markaðarins hækkar fasteignaverðið, eins og það hefur gert undanfarna mánuði.“

Þá hefur Seðlabankinn bent á að það myndi styrkja innlendan skuldabréfamarkað ef ríkissjóður gæfi meira út af eigin skuldabréfum þótt hann hafi ekki þörf fyrir lánsfé. Af því hlytist einhver beinn kostnaður fyrir ríkissjóð en frá langtímasjónarmiði yrði til virkari innlendur fjármagnsmarkaður. Ríkissjóður ætti þá einnig greiðari aðgang að þeim markaði ef hann þyrfti á ný á lánsfé að halda.

 

Íbúðalánasjóður endurskoðaður

Ingimundur segir Seðlabankann ekki hafa opinbera skoðun á því hvernig réttast sé að breyta hinu opinbera íbúðalánakerfi.

„Það sem skiptir hins vegar máli fyrir Seðlabankann er að þær breytingar verði gerðar sem gera peningastefnunni kleift að hafa tilætluð áhrif. En það er jafnframt mikilvægt að í því framtíðaríbúðalánakerfi sem hér verður mótað verði líka traustur grunnur undir skuldabréfamarkaðinn. Við höfum bent á þessi atriði í nokkur ár, m.a. í ritum bankans, í umsögnum til Alþingis og í greinargerðum til ráðherra. Harla lítið hefur hins vegar gerst. Alþjóðastofnanir hafa einnig bent á að löngu tímabært sé að endurskoða hlutverk Íbúðalánasjóðs. Í því sambandi má sérstaklega vekja athygli á umsögnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, síðast nú í sumar. Skýrslur sjóðsins sýna að þeir sem þær hafa unnið hafa lagt sig eftir því að kynna sér mjög rækilega fyrirkomulag íbúðalána hér á landi. Við tökum undir ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessum efnum.“

Hann segir Seðlabankann bíða þess að teikn sjáist um að það fari að hægjast um á fasteignamarkaði. Bankinn hefði kosið að slík teikn hefðu nú þegar komið fram. Það yrði ótvírætt til bóta við núverandi aðstæður ef vextir af útlánum Íbúðalánasjóðs yrðu hækkaðir, líkt og gerst hefur hjá bönkunum. Sjóðurinn fjármagni sig hins vegar á markaði með ríkisábyrgð til mjög langs tíma og þar hafi ávöxtunin verið lægst, og því hafi hann getað farið hóflegar í vaxtahækkanir að undanförnu en ella.

„Það myndi hins vegar hjálpa okkur ef vextir af útlánum Íbúðalánasjóðs hækkuðu meira en þeir hafa gert, þannig að ávöxtun á skemmri enda verðtryggða skuldabréfamarkaðarins endurspeglaðist betur í útlánavöxtum sjóðsins. Tilgangur peningalegs aðhalds er að gera lánsfé dýrara þannig að fjárfestingum og neyslu sé frestað þar til skilyrði hafa breyst.“

Samtök atvinnulífsins hafa lýst áhyggjum af afleiðingum peningamálastefnu Seðlabankans og telja að hún eigi þátt í þeim óstöðugleika sem verið hefur í efnahagslífinu. Hafa samtökin í þessu sambandi bent á mögulegar breytingar á markmiðum um verðlagsþróun er snúa að verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem þau telja að geti haft grundvallaráhrif á þróun kjarasamningaviðræðna milli aðila vinnumarkaðarins. Meðal þess sem samtökin hafa lagt til er að verðbólgumarkmið Seðlabankans miðist við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðarins, en að undanförnu hefur sá liður staðið fyrir um helming verðbólgunnar hér á landi. Í annan stað hafa Samtök atvinnulífsins lagt til að horfið verði frá því að ákveða eitt ákveðið tölugildi fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Í þriðja lagi hafa þau svo bent á þann möguleika að setja takmörk á stýrivaxtamun á milli Íslands og annarra landa.

Ingimundi líst ekki á þessar hugmyndir. „Við teljum að það sé kostur að hafa húsnæðisliðinn inni í verðbólgumælingunni. Hann endurspeglar stóran hluta af framfærslukostnaði heimilanna og vísitala neysluverðs með húsnæðiskostnaði er stöðugri mælikvarði á verðbólgu en vísistalan án hans. Auk þess er húsnæðisverðið leiðandi vísbending. Ef það hækkar hratt bendir það til vaxandi einkaneyslu síðar. Við viljum því ekki að húsnæðisverðið verði tekið út. Sums staðar þar sem það er ekki inni í vísitölunni sem verðbólgumarkmið byggist á sakna menn þess,“ segir Ingimundur, sem telur svipað eiga við um aðrar hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um breytingar á verðbólgumarkmiðinu.

„Við teljum þær ekki til bóta. Mér finnst mjög varasamt að slaka eitthvað á þeim markmiðum sem við höfum um verðbólgu. Við eigum að geta náð verðbólgumarkmiðinu með skynsamlegri stefnu og góðu fyrirkomulagi á markaði og það er engin ástæða til að slaka eitthvað á þeim kröfum sem þar eru gerðar.

Það er ótvírætt í okkar huga að peningalegt aðhald hefur skilað árangri. Við eigum hins vegar við vanda að stríða sem stafar af þenslu liðinna ára, sem á sér að einhverju leyti rætur í stóriðjuframkvæmdum og ekki síst í þeim breytingum sem urðu á húsnæðislánamarkaðinum árið 2004 og gerðust mjög snöggt og leiddu til hraðs vaxtar einkaneyslu. Minna má á að þessar breytingar urðu á sama tíma og vextir á heimsvísu voru í sögulegu lágmarki. Ef miðlunarferli peningastefnunnar væri greiðara, ef meira aðhald stafaði frá opinberum fjármálum, bæði ríki og sveitarfélögum, ef framvinda launa hefði verið meira í samræmi við verðbólgumarkmiðið þá væri verðbólgan minni. Við erum hins vegar enn að glíma við þessa miklu spennu í þjóðfélaginu, þrátt fyrir að stundum heyrist talað um að hér sé mjög tekið að hægja á. Ástandið á vinnumarkaði bendir ekki til þess. Atvinnuleysi mælist undir einu prósenti. Á meðan vinnumarkaðurinn er eins spenntur og raun ber vitni er ekki hægt að draga þá ályktun að það sé verulega farið að hægja á.“

Ingimundur segir bankann hafa í síðustu viku ákveðið að breyta ekki stýrivöxtunum og lýst því þá yfir að ekki væri ástæða til að hvika frá verðbólguspánni sem birt var í júlí.

„Við tókum líka skýrt fram að ef verðbólguhorfur versnuðu myndi bankastjórnin bregðast við og það sama gildir ef horfur batna frá því sem spáð var. Við munum auðvitað fylgjast mjög grannt með framvindunni næstu mánuði. Horfurnar eru hins vegar óvenju óvissar um þessar mundir vegna aðstæðna úti í heimi, en eins og endranær eru þær viðkvæmastar fyrir óvissu um gengi krónunnar. Þróun þess verður mjög háð því sem gerist á alþjóðlegum mörkuðum.“

 

Óróinn kemur ekki á óvart

Ingimundur segir að engin leið sé að segja til um hvort samdráttur sé framundan í alþjóðlegu efnahagslífi. Mál hafi ekki skýrst nægilega til þess. Við því hefði hins vegar mátt búast að breytingar yrðu á mörkuðum. Því hefði margsinnis verið spáð á alþjóðavettvangi að breytingar yrðu í hinu alþjóðlega umhverfi, og Seðlabankinn hefði einnig vikið að því í ritum sínum. Þær gætu orðið mjög skyndilega.

„Óvenjumikið framboð hefur verið á lausafé á alþjóðamörkuðum undanfarin misseri. Vextir hafa verið í sögulegu lágmarki og þarf sums staðar jafnvel að fara hundrað ár aftur í tímann til að finna annað eins. Og áhættusæknin hefur verið gríðarlega mikil. Á það hefur jafnframt verið bent að áhætta hafi ekki verið verðlögð rétt. Of lítill munur væri á áhættusömum og áhættulitlum fjárfestingum. Þetta ástand hlaut að breytast og það er einmitt það sem nú er að gerast. Erfitt var hins vegar að sjá nákvæmlega hvernig það myndi gerast, en á daginn kom að það voru erfiðleikar á bandarískum fasteignalánamarkaði sem hrintu breytingunum af stað.

Ekki sér fyrir endann á þessari atburðarás en þó er ljóst að fjármálastofnanir um allan heim eru afar varfærnar um þessar mundir,“ segir Ingimundur og bendir á að millibankamarkaðir hafi ekki verið eins liprir og alla jafna og þar hafi gætt lausafjárskorts. Seðlabankar vestanhafs og austan hafi mætt þessu með viðbótarfyrirgreiðslu. „Til þess hefur ekki komið hér og ekki útlit fyrir að þörf verði á slíku. Athyglin beinist hins vegar í vaxandi mæli að því hver áhrif af þessari framvindu kunna að verða, hvort hún muni leiða til samdráttar í þjóðarbúskap stóru iðnríkjanna. Lánskjör hafa versnað vegna þessa óróa, og þess mun gæta hér. Það er þó ekkert sem gefur sérstaklega til kynna að kreppa sé yfirvofandi. Engar forsendur eru til þess að vera með einhverja slíka spádóma uppi nú.“

 

Evran ekki hyggileg

Umræða um krónuna og hugsanlega upptöku evru sem gjaldmiðils hér á landi hefur verið meiri að undanförnu en oftast áður. Ingimundur segir að það sé ekki hlutverk Seðlabankans að ákveða hvaða gjaldmiðill er notaður hér á landi, það sé pólitísk ákvörðun. Seðlabankinn starfi eftir lögum frá árinu 2001. Þar sé bankanum falið það meginmarkmið að stuðla að stöðugu verðlagi auk annarra markmiða eins og að stuðla að stöðugleika fjármálakerfisins.

„Seðlabankinn hefur engu að síður látið í ljós þá skoðun, að ekki væri hyggilegt að taka upp evru hér á landi í stað krónunnar, nema með því að ganga í Evrópusambandið. Og ég held að það sé ástæða til að vara við að flanað verði að einhverju í þessum efnum. Þá má nefna að ef minnstu líkur eru taldar á því að Ísland gangi í Evrópusambandið með tímanum, þá held ég að það væri sérstaklega óráðlegt að taka upp evru einhliða. Það er meðal annars vegna þess að við yrðum þá að verja hluta gjaldeyrisforðans til að kaupa evrur, sem yrðu hér í umferð, sem ekki þyrfti að gera með aðild að sambandinu. Hér eru nú í umferð seðlar og mynt að fjárhæð vel á sextánda milljarð króna. Með aðild leiðir af sjálfu sér að við myndum fá hingað evrur.

Með einhliða upptöku evrunnar myndum við tapa svokölluðum myntsláttuhagnaði, sem er svo sem ekki mikill, og hann rynni óskiptur til Seðlabanka Evrópu. Og við myndum ekki njóta nokkurs af þeirri stöðu sem fælist í því að vera í myntbandalagi, að eiga þátt í ákvörðunum né njóta þeirrar samtryggingar og samstarfs sem fælist þar í, ef við tækjum einhliða upp evru.“

Við einhliða upptöku evru myndi væntanlega hverfa hlutverk Seðlabankans sem lánveitanda til þrautavara fyrir fjármálakerfið. Hann yrði þá ekki lengur hugsanlegur bakhjarl fjármálafyrirtækjanna og þau ættu jafnvel ekki athvarf í neinum seðlabanka. Að síðustu mætti nefna, og þá óháð því með hvaða hætti nýr gjaldmiðill yrði tekinn upp, að ríkissjóður ábyrgist háar fjárhæðir í verðtryggðum skuldabréfum í krónum sem hafa verið gefin út á innlendum markaði til mjög langs tíma og eru óuppsegjanleg. Ekki er tryggt að á móti standi samsvarandi tekjur ef breytt verður um mynt.

Ingimundur segir að opinber umræða um hugsanlega upptöku evrunnar hljómi stundum eins og að með henni næðist sjálfkrafa stöðugleiki í efnahagslífi.

„Því fer auðvitað víðs fjarri. Stundum virðist sem leitast sé við að beina athyglinni frá vanda líðandi stundar sem ekki hverfur þótt hætt sé að hugsa um hann. Með upptöku annars gjaldmiðils yrði sjálfstæð peningamálastjórn úr sögunni. Ábyrgðin sem lögð yrði á herðar þeim sem fara með stjórn opinberra fjármála og þeirra sem ráða ferð á vinnumarkaði yrði miklu meiri en hingað til ef tryggja ætti stöðugleika. Ef ekki tækist vel til í þeim efnum myndi það leiða til þess að samkeppnisstaða Íslands versnaði sem á endanum gæti leitt til samdráttar og atvinnuleysis.“

 

Krónan dugað hingað til

Að endingu nefndi hann að hugmyndir sem einnig hefðu heyrst um að tengja krónuna við annan gjaldmiðil væru óraunhæfar. Slík tenging myndi krefjast mikilla fórna ef hún ætti að vera trúverðug og álitamál sé hvort stuðningur væri við slíkt.

„Ég held því að ráðlegt sé að fara að öllu með gát og taka ekki neinar ákvarðanir sem kynnu að koma okkur í koll síðar. Það þarf að hyggja að hagsmunum og sjónarmiðum til langrar framtíðar þegar rætt er um hvaða gjaldmiðill skuli notaður hér á landi. Hver sem niðurstaðan verður í þessum efnum þá er krafan sú að hér verði rekin stefna sem tryggir jafnvægi í þjóðarbúskapnum,“ segir Ingimundur og bætir við að krónan hafi dugað okkur vel hingað til og geti gert það áfram.

„Vissulega hefur gengi krónunnar sveiflast nokkuð að undanförnu en það hefur gengi annarra gjaldmiðla einnig gert, þar með taldir helstu gjaldmiðlar heimsins. Þeir hafa hreyfst mikið hver gagnvart öðrum að undanförnu sem einnig hefur haft óbein áhrif á krónuna. Sannarlega eru gengissveiflur ekki til þæginda en minna má á að á markaði bjóðast möguleikar til þess að verjast áhrifum gengisbreytinga.“

Viðtal: Grétar Júníus Guðmundsson.

Til baka