logo-for-printing

05. júní 2007

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2007

Í dag verða birt á heimasíðu Seðlabanka Íslands bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2007 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 28 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins sem er aðeins um helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra (57,3 ma.kr.). Halli var á öllum liðum viðskiptajafnaðar; vörulið, þjónustulið, þáttatekjum og rekstrarframlögum. Halli á vöruskiptum var 8,1 ma.kr. samanborið við 31,9 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Minni viðskiptahalli fyrsta ársfjórðungs skýrist að hluta til af sérstökum liðum, svo sem sölu flugvéla og hagnaðar af fjárfestingu erlendis. Batinn á þáttatekjum er rakinn til hlutdeildar Íslendinga í hagnaði erlendra fyrirtækja, en hann er færður til tekna og endurfjárfestur á sama tíma í fyrirtækjunum. Lítils háttar aukning varð á gjaldahlið þáttateknanna, sem á sama hátt skýrist af endurfjárfestum hagnaði erlendra aðila á Íslandi. Hins vegar var nýfjárfesting erlendra aðila á Íslandi lítil á ársfjórðungnum.

Hreint fjárútstreymi nam 88,3 ma.kr. á ársfjórðungnum. Bein fjárfesting innlendra aðila erlendis og kaup þeirra á erlendum skuldabréfum jukust töluvert frá síðasta ársfjórðungi 2006. Á hinn bóginn dróst bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi saman og sama máli gegndi um fjárfestingu þeirra í íslenskum markaðsskuldabréfum.

Fréttin í heild með töflu (pdf-skjal)

Nr. 10/2007
5. júní 2007

Til baka