logo-for-printing

22. desember 2006

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands fyrir erlendar skuldbindingar lækkaðar

22. desember 2006

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands fyrir erlendar skuldbindingar lækkaðar í A+/A-1 og skuldbindingar í íslenskum krónum í AA/A-1+ vegna ójafnvægis á milli peningamála og ríkisfjármála. Horfur stöðugar.

Matsfyrirtækið Standar & Poor's birti í dag frétt sem er svo hljóðandi í íslenskri þýðingu:

„Matsfyrirtækið Standard & Poor’s greindi frá því í dag að það hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í A+ úr AA- og fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt í A-1 úr A-1+. Um leið var lánshæfiseinkunnin fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum lækkuð í AA úr AA+ en einkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í íslenskum krónum var staðfest A-1+. Horfur eru stöðugar.

Lækkunin endurspeglar minnkandi aðhald í ríkisfjármálum í aðdraganda þingkosninganna 2007. Breytingar við afgreiðslu fjárlaga 2007 eru þensluhvetjandi á sama tíma og brýn þörf er á að draga úr

þjóðhagslegu ójafnvægi sem stafar af óhóflegri innlendri eftirspurn. Þessi þensluhvetjandi stefna er æ meira á skjön við stefnuna í peningamálum sem hefur knúið Seðlabankann til að auka enn frekar aðhald sitt, eins og hækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur hinn 21. desember ber vitni. Þar með aukast líkur á harðri lendingu íslenska hagkerfisins, þegar dregur úr því þjóðhagslega ójafnvægi sem skapast hefur síðan útlána- og fjárfestingaþenslan hófst fyrir tveimur árum.

Ennfremur leiðir vaxandi þáttatekjuhalli sem fram kom í nýlegum gögnum um greiðslujöfnuð til þess að horfur fyrir viðskiptahallann og hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins versna þegar fram í sækir.

Aftur á móti er lánshæfismatið stutt af stöðugu og sveigjanlegu stjórnkerfi, mikilli hagsæld og góðum hagvaxtarhorfum til lengri tíma litið, svo og lágum og minnkandi skuldum ríkissjóðs vegna umtalsverðs afgangs á síðustu þremur árum.

Við afgreiðslu fjárlaga 2007 voru samþykktar breytingar frá upphaflegu frumvarpi sem minnka áætlaðan afgang um 0,5% af landsframleiðslu í 1% af landsframleiðslu fyrir árið 2007. Eftir leiðréttingu vegna hagsveiflunnar og hækkun á áætluðum tekjum eru þensluhvetjandi áhrif sem verða við þessar breytingar, þ.e. í samanburði við upphaflegt fjárlagafrumvarp, í heild 13,6 ma.kr. eða sem samsvarar 1,2% af áætlaðri landsframleiðslu. Frekari slökun á aðhaldi, á sama tíma og framleiðslugeta er fullnýtt, er talin verða til þess að kynda enn frekar undir ofhitnuðu hagkerfi og auka líkur á harði lendingu.

Þensluhvetjandi ríkisfjármál og spenna á vinnumarkaði skapa hættu á að verðbólguþrýstingur magnist enn. Þetta gæti leitt til frekari vaxtahækkana, en fyrir vikið yrði aðlögunarferlið sársaukafyllra og efnahagslífið raskaðist meira en ella.

Hagvöxtur mun líklega standa í stað árið 2007 en smám saman ná sér aftur á strik og verða um 3% árið 2010. Hagkerfið tekur að veikjast við skilyrði léttrar skuldabyrði hins opinbera, eða sem nemur 24% af VLF árið 2006. Þetta eru helmingi lægri skuldir en fyrir fimm árum. Möguleiki á alvarlegum samdrætti í efnahagslífinu er hins vegar fyrir hendi. Við slíkar aðstæður myndi reyna meira á afkomu ríkissjóðs og skuldbindingar hans, svo sem vegna lánaábyrgða eða fjármálakerfisins.

Erlend fjárþörf landsins er ein sú mesta af ríkjum sem hafa lánshæfismat. Hún stafar af mikilli erlendri skuldabyrði um gervallt hagkerfið ásamt miklum viðskiptahalla. Hreint útflæði fjármagns vegna beinnar erlendrar fjárfestingar og fjárfestingar í erlendu hlutafé auka einnig undir fjárþörf. Því er búist við að hrein erlend skuldastaða nemi hátt í 500% af erlendum tekjum í lok áratugarins þrátt fyrir ört vaxandi útflutning árin 2007 og 2008 vegna aukinnar álframleiðslu.

Horfur
Stöðugar horfur endurspegla mikla hagsæld og sveigjanleika sem vega á móti skuldsetningu útflutningsgreina og mjög veikri erlendri stöðu. Miklar tekjur og auðlegð sem og sterk staða ríkissjóðs hjálpa til við aðlögun hagkerfisins.“

Nánari upplýsingar veitir formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands Davíð Oddsson í síma 569-9600.

Aðalsérfræðingur hjá Standard & Poor’s um málefni Íslands: Eileen Zhang, London, (44) 20-7176-7105, eileen_zhang@standardandpoors.com

 

Frétt nr. 48/2006
22. desember 2006

Til baka