logo-for-printing

19. maí 2004

Fitch Ratings staðfestir lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings staðfesti í dag lánshæfiseinkunnir Íslands, AA- fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt, AAA fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum og F1+ fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt. Horfur um breytingar á matinu eru stöðugar (e. stable).

Í frétt sinni segir Fitch það renna stoðum undir matið og stöðugar horfur að vel hefur gengið að takast á við ágjafir, að stofnanir eru faglega vel búnar, að stefnan í ríkisfjármálum hefur verið gætin og mjög góður horfur eru á góðum hagvexti og vexti útflutnings í kjölfar mikillar fjárfestingar í álframleiðslu.

Fitch segir aðlögun íslenska hagkerfisins á árunum 2001-2002 í kjölfar ofþenslu og hraðs útlánavaxtar hafa tekist afar vel. Á árinu 2003 hafði þjóðarbúskapurinn náð jafnvægi á ný, hagvöxtur tekið verulega við sér og mælst 4%. Þrátt fyrir þetta virðist ákveðnir veikleikar hafa skotið upp kollinum á ný, þar á meðal óvæntur halli á fjárlögum sem nam 1,4% af vergri landsframleiðslu (VLF), viðskiptahalli sem varð 5,6% af VLF frá því að vera nánast enginn árið áður og erlend skuldaaukning umfram það sem tengja má stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi, og aðallega endurspeglar erlendar lántökur bankanna. Hið síðast talda leiddi til mikillar útlánaaukningar til einkageirans og spennti upp eignaverð, en verð hlutabréfa nærri því tvöfaldaðist á síðustu 12 mánuðum. Vergar erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust úr 132% af VLF á árinu 2002 í 155% á árinu 2003 og hreinar erlendar skuldir hækkuðu í 106% af VLF, sem er með því hæsta sem þekkist meðal þjóða.

Á Íslandi er að hefjast öflugt hagvaxtarskeið þar sem fjárfesting í stóriðju og tengdum framkvæmdum mun nema jafnvirði um 30% af þessa árs VLF fram til ársins 2008. Þessar framkvæmdir munu örva hagvöxt og útflutningsgetu og auka fjölbreytni í þjóðarbúskapnum. Eftir því sem framkvæmdir vaxa eykst hins vegar hættan á ofþenslu og Ísland hefur tæplega efni á að hreinar erlendar skuldir vaxi verulega umfram það sem réttlætanlegt er vegna mikilla stóriðjuframkvæmda.

Fitch sér þegar merki um spennu í hagkerfinu. Eignaverð hefur hækkað og skuldsetning einkageirans aukist umfram það sem eðlilegt má telja, auk þess sem raungengi krónunnar hefur hækkað nokkuð. Til samans gætu þessir þættir verið vísbending um spennu og aukna hættu á viðsnúningi sem gæti reynt á bankana. Skuldir heimilanna eru miklar, um 180% af ráðstöfunartekjum, og greiðslubyrði þung. Líklegt er að bankarnir haldi áfram að taka erlend lán í töluverðum mæli, sérstaklega ef vaxtamunur við útlönd helst áfram verulegur. Hluti erlendra lána bankanna er endurlánaður í erlendri mynt til lánþega sem ekki hafa tekjur í erlendri mynt.

Ríkisfjármálin gegna lykilhlutverki í að afstýra hugsanlegri ofþenslu í hagkerfinu. Fjárlögin fyrir árið í ár gera ráð fyrir lítilsháttar afgangi og spáð er 1,1% afgangi af VLF á næsta ári. Fitch nefnir að ef þessi áætlun á að ganga eftir gæti þurft að fresta skattalækkunum sem fyrirhugaðar eru á árunum 2005-2007 að jafnvirði 2½% af landsframleiðslu ársins 2003. Jafnframt gæti þurft að auka aðhald í ríkisfjármálum frá því sem nú er búist við.

Fitch telur áform ríkisstjórnarinnar um að setja Íbúðalánasjóð undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins skref í rétta átt. Hins vegar er Fitch þeirrar skoðunar að ráðandi staða Íbúðalánasjóðs á markaði fyrir lán til íbúðakaupa stuðli að kerfislægri óhagkvæmni. Skuldbindingar Íbúðalánasjóðs njóta ríkisábyrgðar sem gefur sjóðnum samkeppnisforskot og hindrar aðgang annarra að þessum markaði. Þetta skýri einnig að einhverju leyti hlutfallslega smæð íslenska bankakerfisins og vaxandi viðleitni bankanna til útrásar sem fjármögnuð er með erlendum lánum.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs bankans í síma 569-9600.

 

Nr. 12/2004
19. maí 2004

Til baka