logo-for-printing

08. nóvember 2001

Peningamál í Evrópusambandinu og á Íslandi: Ræða

Góðir áheyrendur.
Samrunaþróunin í Evrópu er um margt mjög merkileg. Hún hófst fljótt eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar og fól í sér viðleitni til þess að tengja þjóðir Evrópu nánari böndum og þar með meðal annars að draga úr líkum á frekari átökum í álfunni. Ég mun ekki rekja þá sögu hér en nefna má að margir merkir áfangar voru á þeirri leið sem farin hefur verið. Einhver merkasti áfanginn var þó sá sem fól í sér formlega stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu í ársbyrjun 1999. Nú hillir undir að gjaldmiðlar einstakra aðildarþjóða hverfi af sjónarsviðinu. Frá næsta ári verða þeir leystir af hólmi af evruseðlum og mynt. Þá mun ekki aðeins verð á vöru og þjónustu verða reiknað og gefið upp í einum og sama gjaldmiðlinum í tólf ríkjum Myntbandalagsins, heldur munu sömu seðlar og sama mynt notuð til viðskipta í öllum löndunum. Verðlagning í einum og sama gjaldmiðlinum í öllum aðildarlöndunum felur meðal annars í sér að kaupendur vöru og þjónustu eiga mun auðveldara með að bera saman verð en áður og fullyrða má að samkeppni verður virkari innan Evrópusambandsins en hún hefur verið til þessa.

Efnahags- og myntbandalag Evrópu

Í Myntbandalaginu búa liðlega 300 milljónir manna og landsframleiðsla þeirra svarar til um 16% af samanlagðri landsframleiðslu allra ríkja heims. Til samanburðar má nefna að í Bandaríkjunum búa um 280 milljónir manna og að landsframleiðsla þeirra svarar til 22% af samanlagðri landsframleiðslu allra ríkja heims. Útflutningur vöru og þjónustu svarar til um 19% af landsframleiðslu Myntbandalagsins en sambærilegt hlutfall er tæp 11% í Bandaríkjunum. Um 19% heildarvöruútflutnings allra ríkja heims koma frá Myntbandalaginu og um 15% frá Bandaríkjunum.

Tólf af fimmtán þjóðum Evrópusambandsins eiga aðild að Myntbandalaginu. Fyrir utan standa Bretland, Danmörk og Svíþjóð. Aðstæður þeirra eru nokkuð mismunandi. Fyrirvarar gilda um aðild Danmerkur og Bretlands, fyrirvarar sem samkomulag varð um á milli þessara landa og annarra ríkja Evrópusambandsins. Svíar hafa hins vegar valið að standa utan Myntbandalagsins þótt ekki hafi verið samið um neina sérstaka fyrirvara þeim til handa. Danmörk er í gjaldmiðilssamstarfi við Myntbandalagið sem meðal annars felur í sér að gengi dönsku krónunnar má ekki víkja meira en 2,25% frá skilgreindu miðgengi gagnvart evru. Danmörk hefur því mjög takmarkað sjálfstæði í peningamálum. Þetta endurspeglast í því að danski seðlabankinn breytir jafnan vöxtum sínum í kjölfar tilkynninga um breytingar á vöxtum Seðlabanka Evrópu. Svíar og Bretar hafa valið verðbólgumarkmið sem umgjörð peningastefnunnar. Hún hefur það því ekki að markmiði að halda gengi gjaldmiðla þessara landa stöðugu gagnvart gengi evrunnar.

Seðlabanki Evrópu

Í Maastricht sáttmálanum er kveðið á um fyrirkomulag peningamála í Myntbandalaginu. Aðildarþjóðir Evrópusambandsins sköpuðu umgjörð um starfsemi Seðlabanka Evrópu sem átti sér að nokkru leyti fyrirmynd í þýska seðlabankanum en var á margan hátt frábrugðin því sem verið hafði í fjölmörgum aðildarlandanna. Sett voru ýmis skilyrði sem aðildarþjóðir bandalagsins urðu að uppfylla til þess að geta hlotið aðild að Myntbandalaginu. Annars vegar lutu þessi skilyrði að mikilvægum þáttum í framvindu efnahagsmála, svo sem verðbólgu, ríkishalla og ríkisskuldum og vöxtum. Hins vegar lutu þau að umgjörðinni sem Maastricht-sáttmálinn kvað á um að gilda skyldi um stjórn peningamála í Myntbandalaginu.

Þessi stefna var í samræmi við vaxandi stuðning við það sjónarmið að eðlilegt væri að setja seðlabönkum einfalt markmið, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi, að auka sjálfstæði þeirra frá stjórnmálaforystunni til þess að vinna að meginmarkmiðinu, og efla fjárhagslegt sjálfstæði þeirra. Þá var og lögð áhersla á að um leið og sjálfstæði seðlabanka væri eflt yrði að gera ríkari kröfur til þeirra um gagnsæi í starfsemi sinni og athöfnum og um að þeir stæðu reikningsskil gerða sinna gagnvart kjörnum stjórnvöldum og almenningi.

Allt þetta endurspeglaðist í Maastricht-sáttmálanum. Seðlabanki Evrópu sem tók formlega til starfa á miðju ári 1998 nýtur mikils sjálfstæðis og kröfur eru gerðar til hans um gagnsæi og reikningsskil. Enda þótt Svíar eigi ekki aðild að Myntbandalaginu enn sem komið er breyttu þeir lögunum um sænska seðlabankann þannig að þau uppfylla skilyrði Maastricht-sáttmálans að mestu. Lögin um breska seðlabankann uppfylla sáttmálann ekki að fullu en bankanum var sem kunnugt er veitt mjög aukið sjálfstæði fyrir fáeinum árum. Í Danmörku hefur lögunum um seðlabankann enn ekki verið breytt. Þeim þarf þó að breyta komi til þess að Danir gangi í Myntbandalagið. Ekki síst þarf að tryggja sjálfstæði hans í lögum

Stöðugt verðlag meginmarkmið

Í Maastricht-sáttmálanum var Seðlabanka Evrópu sett eitt meginmarkmið, þ.e. að tryggja stöðugt verðlag. Sáttmálinn skilgreindi hins vegar ekki verðstöðugleika, bankinn gerði það sjálfur og þannig að verðstöðugleiki væri árshækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs undir 2%. Í sérstökum stöðugleika- og hagvaxtarsáttmála er kveðið á um að aðildarríki Myntbandalagsins skuli til lengri tíma stefna að jöfnuði eða afgangi í ríkisfjármálum og að halli í fjármálum hins opinbera skuli vera undir 3% af landsframleiðslu.

Þau sjónarmið sem réðu við mótun umgjarðar peningamálastjórnarinnar í Evrópu réðu einnig víða annars staðar í heiminum. Nefna má til dæmis iðnríki eins og Ástralíu og Nýja Sjáland auk þess sem fjölmörg ríki, svo sem umbreytingarlönd í Austur-Evrópu og nýiðnvædd lönd í Rómönsku-Ameríku og Asíu breyttu löggjöf sinni með hliðsjón af meginsjónarmiðunum um einfalda markmiðssetningu, sjálfstæði og gagnsæi.

Enda þótt Ísland ætti enga aðild að samvinnu í peningamálum í Evrópu og ekki væru horfur á að breyting yrði á í fyrirsjáanlegri framtíð taldi Seðlabanki Íslands rétt að fylgjast eins grannt með framvindunni og kostur var. Forvera Seðlabanka Evrópu, Peningastofnun Evrópu, var komið á fót í ársbyrjun 1994 og snemma stofnaði Seðlabanki Íslands til formlegra samskipta við hana. Þeim var síðan framhaldið eftir að Seðlabanki Evrópu tók til starfa. Jafnframt hafa sérfræðingar Seðlabanka Íslands átt greiðan aðgang að sérfræðingum Seðlabanka Evrópu um ýmis atriði sem varða mótun en ekki síst framkvæmd peningastefnu. Viðfangsefni Seðlabanka Íslands á þessum vettvangi endurspegluðust meðal annars í viðamiklu riti sem bankinn gaf út á miðju ári 1997 um Efnahags- og myntbandalag Evrópu.

Seðlabanki Íslands breytti stjórntækjum sínum

Þá má nefna að í mars 1998 gerði Seðlabanki Íslands umfangsmiklar breytingar á stjórntækjum sínum í peningamálum. Meginatriði þeirra var að stjórntækin voru löguð að því sem þá þegar hafði verið ákveðið fyrir Seðlabanka Evrópa enda þótt hann hefði enn ekki tekið til starfa. Af því leiðir að frá þeim tíma hefur Seðlabanki Íslands viðhaft starfsaðferðir sem eru í meginatriðum hliðstæðar þeim sem Seðlabanki Evrópu beitir. Helst skilur í milli í útfærslu á uppboðum á svokölluðum endurhverfum samningum. Seðlabanki Íslands hefur til þessa boðið út ótakmarkaða fjárhæð á föstum vöxtum. Seðlabanki Evrópu ákvað í fyrstu bæði vexti og heildarfjárhæð fyrirgreiðslu sinnar hverju sinni. Afleiðingin varð sú að í uppboðum bankans á endurhverfum verðbréfakaupum var jafnan aðeins tekið litlum hluta þeirra tilboða sem bárust. Frá þessu fyrirkomulagi var horfið og í seinni tíð hefur Seðlabanki Evrópu boðið út ákveðna fjárhæð en ekki á fyrirfram ákveðnum vöxtum. Útboðsfjárhæðirnar eru ákveðnar á grundvelli mats bankans á reiðufjárþörf lánastofnana sem bankinn gerir og þeirra peningamarkaðsvaxta sem bankinn stefnir að. Ástæða þess að Seðlabanki Evrópu hefur valið þá leið sem hann fer er meðal annars sú að mismunandi fyrirkomulag gilti um lausafjárfyrirgreiðslu seðlabanka aðildarríkja Myntbandalagsins áður en Seðlabanki Evrópu var stofnaður og samræma þurfti ólík sjónarmið í þessum efnum.

Að því er varðar aðra þætti í starfsemi seðlabanka og áhrif þeirra hér á Íslandi er kannski fyrst til að taka að Seðlabanki Íslands hóf fyrir allmörgum árum að auka gagnsæi starfsemi sinnar og athafna. Þetta endurspeglaðist meðal annars í því að hann leitaðist við að skýra enn betur stefnu sína og mat á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum. Liður í þessari viðleitni var að síðla árs 1999 varð gagngerð breyting á útgáfustarfsemi bankans. Hann hætti að gefa út Hagtölur mánaðarins sem komið höfðu út frá árinu 1974 og hóf útgáfu á ársfjórðungsritinu Peningamálum sem gaf miklu betra færi en fyrri rit á að koma á framfæri greinargóðum skýringum á mati bankans á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum, á aðgerðum bankans á innlendum mörkuðum og á stefnu hans. Auk þess gaf hið nýja rit færi á að birta annað efni sem beint eða óbeint varðar stefnu bankans. Ákvörðun var jafnframt tekin um að ársfjórðungsleg verðbólguspá bankans yrði jafnan birt í Peningamálum. Því má segja að ársfjórðungsritið Peningamál sé nú orðið meginsviðið þar sem Seðlabankinn stendur reikningsskil gerða sinna gagnvart stjórnvöldum og almenningi.


Ný lög um Seðlabanka Íslands

Mikilvægasti áfanginn í breytingum sem varða Seðlabankann varð þó í ár þegar Alþingi samþykkti ný lög um bankann. Rifja má upp að nefnd sem forsætisráðherra skipaði undir lok síðasta árs skilaði í mars síðastliðnum drögum að frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í byrjun apríl og um það myndaðist svo breið samstaða að það var samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum allra viðstaddra þingmanna. Nýju lögin um Seðlabankann taka mjög mið af þeirri umgjörð sem sköpuð hafði verið seðlabönkum í öðrum löndum á undanförnum árum, þar með talið í Myntbandalagi Evrópu. Seðlabankanum var sett einfalt markmið, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi, honum var veitt fullt sjálfstæði til að beita tækjum sínum, fjárhagslegt sjálfstæði hans var tryggt og lögfestar kröfur um gagnsæi og reikningsskil auk ýmissa annarra atriða. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hin nýja löggjöf um Seðlabankann hafði vakið nokkra athygli á alþjóðavettvangi og þá ekki síst hve hratt var unnið að endurnýjun laganna og hve breið samstaða myndaðist um breytingarnar.

Í lögunum var Seðlabankanum veitt heimild til þess að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu með samþykki forsætisráðherra. Með þessu ákvæði var lögfest sú stefna sem upp var tekin 27. mars síðastliðinn þegar umgjörð peningastefnunnar var breytt og sveigjanleg fastgengisstefna vék fyrir verðbólgumarkmiði og fljótandi gengi. Enda þótt mjög ítarlega hafi verið fjallað um breytingarnar sem urðu á umgjörðinni og meginatriði hinnar nýju stefnu hefur bankinn oft orðið þess áskynja að misskilnings gætir meðal margra. Ég ætla því að fara nokkrum orðum um megindrætti stefnunnar í peningamálum.

Verðbólga er peningalegt fyrirbrigði

Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands sem undirrituð var 27. mars síðastliðinn var Seðlabankanum sett ákveðið verðbólgumarkmið. Bankinn skyldi stefna að því að verðbólga yrði sem næst 2½%. Jafnframt voru skilgreind þolmörk, 1½% hærri en verðbólgumarkmiðið og 1½% lægri. Verðbólgumarkmiðið var skilgreint sem hækkun vísitölu neysluverðs á tólf mánuðum. Færi verðbólga út fyrir þolmörkin bæri bankanum að ná henni svo fljótt sem auðið væri inn fyrir mörkin að nýju. Jafnframt bæri bankanum að senda greinargerð til ríkisstjórnarinnar þar sem fram kæmi hver ástæða frávikanna væri, hvernig bankinn hygðist bregðast við og hve langan tíma hann teldi það taka að ná verðbólgumarkmiðinu að nýju. Þessa greinargerð skyldi birta opinberlega. Þegar verðbólgumarkmiðið var sett var verðbólga á Íslandi tiltölulega mikil. Með hliðsjón af því voru efri þolmörk stefnunnar sett í 6% í ár og 4½% á árinu 2002 og síðan í 4% frá árinu 2003.

Miklar sviptingar á gjaldeyrismarkaði á vormánuðum og snörp lækkun á gengi krónunnar urðu þess valdandi að verðbólga jókst verulega og fór út fyrir efri þolmörk í júní síðastliðnum. Seðlabankinn sendi ríkisstjórninni ítarlega greinargerð hinn 20. júní síðastliðinn. Af öðrum atriðum yfirlýsingarinnar má nefna að kveðið var á um að þrátt fyrir afnám vikmarka gengisstefnunnar myndi Seðlabankinn grípa inn í þróun gjaldeyrismarkaðar með kaupum og sölu gjaldeyris teldi hann það nauðsynlegt til að stuðla að markmiðunum um verðbólgu eða ef hann teldi að gengissveiflur gætu ógnað fjármálalegum stöðugleika. Jafnframt skuldbatt Seðlabankinn sig til þess að gera ársfjórðungslega verðbólguspá þar sem spáð væri tvö ár fram í tímann.

Rifja má upp að ein meginástæða þess að markmiðssetning seðlabanka hefur mjög verið einfölduð á undanförnum árum og þeim verið falið það meginmarkmið að stuðla að stöðugleika verðlags er sú að verðbólga er fyrst og fremst peningalegt fyrirbrigði og að til langs tíma hefur stefnan í peningamálum fyrst og fremst áhrif á verðlag. Áhrif hennar á hagvöxt og atvinnu eru því yfirleitt tímabundin. Þar sem seðlabankar hafa í aðalatriðum aðeins eitt stjórntæki, þ.e. vexti, og geta því aðeins náð einu þjóðhagslegu markmiði til langs tíma er eðlilegt að meginmarkmið peningastefnunnar sé stöðugt verðlag. Þetta þýðir ekki að markmiðið um stöðugt verðlag sé mikilvægara en til dæmis markmiðið um fulla atvinnu, heldur einfaldlega að það er í eðli hinna peningapólitísku stjórntækja að þau henta betur til að hafa áhrif á verðlag. Tilgangslítið er að setja peningastefnunni markmið sem hún getur ekki náð. Með verðstöðugleika geta peningamálin með framsýnni stefnumótun lagt sitt af mörkum til að stuðla að stöðugu efnahagsumhverfi sem er undirstaða vaxtargetu hagkerfisins til langs tíma.

Af framansögðu er ljóst að meginviðfangsefni Seðlabankans er að ná verðbólgumarkmiðinu og að því stefnir hann. Hávær umræða hefur að undanförnu verið um að Seðlabankinn ætti að slaka á peningastefnunni til þess að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir yfirvofandi samdrátt í hagkerfinu. Hagvaxtarhorfur hafa áhrif á þróun framleiðsluspennu eða slaka, þ.e. frávik eftirspurnar frá því stigi sem samrýmist jafnvægi framboðs og eftirspurnar eftir innlendum vörum og framleiðsluþáttum. Framleiðsluspenna eða slaki eru síðan einn af þeim þáttum sem leika lykilhlutverk í verðbólguferlinu. Hagvaxtarhorfur hafa því áhrif á peningastefnuna að öðru óbreyttu, þ.e. því verri sem þær eru því lægri vextir og öfugt. Meðan verðbólgan er svo mikil sem raun ber vitni er hins vegar óhjákvæmilegt að framleiðsluspenna fái að hjaðna nægilega og Seðlabankinn getur ekki beitt tækjum sínum að svo komnu máli til að koma í veg fyrir það.

Háir vextir vinna gegn verðbólgu

Seðlabankinn hefur verið þeirrar skoðunar að þar til skýr merki sjást þess að verðbólguspá bankans frá því í ágúst muni ganga eftir sé ekki óhætt að lækka vexti. Bráðræði gæti fylgt hætta á að verðbólga magnaðist enn frekar sem yrði afar afdrifaríkt fyrir heimili, fyrirtæki og skilyrði til hagvaxtar. Því hefur jafnframt verið haldið fram að háir vextir valdi verðbólgu hér á landi en vinni ekki gegn henni. Seðlabankinn er ósammála þessu enda ekki hægt að styðja þetta með hagfræðilegum rökum, athugunum eða rannsóknum. Þvert á móti bendir allt til þess að vextir hafi svipuð áhrif hér á landi og annars staðar. Mikillar ofþenslu var tekið að gæta í íslensku efnahagslífi og náði hún hámarki að því er virðist á síðasta ári. Óumdeilanlegt er að aðhaldssöm peningastefna hefur lagt drjúgan skerf til hjöðnunar hennar. Þessi hjöðnun varð líka að gerast því mikill ójöfnuður hafði skapast í þjóðarbúskapnum, ójöfnuður sem best endurspeglaðist í óviðunandi viðskiptahalla og verðbólguþrýstingi. Óhjákvæmilegt er því að framleiðsluspenna hjaðni til að draga úr verðbólgu og að þjóðarútgjöld minnki enn meir til að viðskiptahalli minnki verulega, en hann er enn langt umfram það sem búið verður við til lengdar.

Háir vextir geta verið sársaukafullir, ekki síst hjá þeim, bæði fyrirtækjum og heimilum, sem ekki hafa sést fyrir í neyslu og fjárfestingu á undanförnum misserum og reitt sig um of á fyrirgreiðslu lánastofnana. Útilokað er að vaxtastefna Seðlabankans taki mið af þeim sem sýnt hafa minnsta fyrirhyggju. Hún hlýtur að taka mið af því sem lögin kveða á um og því sem segir í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans frá því í mars sl., þ.e. að stuðla að stöðugleika í verðlagsmálum. Þetta er markmið sem seðlabankar landa alls hins iðnvædda heims hafa sem leiðarljós í starfsemi sinni vegna þess að það skapar skilyrði til hagvaxtar og bættrar velferðar þegnanna. Í heimi frelsis á fjármagnsmarkaði og stórbætts aðgengis að lánsfé frá því sem áður var verða fyrirtæki og heimili jafnt sem lánastofnanirnar að kunna að fóta sig.

Skiljanlegt er að margir kvarti undan háum vöxtum en í líflegum umræðum opinberra vikna hefur oft gætt oftrúar á áhrif vaxtalækkunar á framvindu efnahagsmála. Hjöðnun umsvifa í efnahagslífinu stafar ekki eingöngu af áhrifum vaxta. Minna má á samdráttaráhrif niðurskurðar aflaheimilda, samdrátt í upplýsingatæknigreinum sem er nátengdur alþjóðlegri þróun og sveiflur í stóriðjuframkvæmdum sem innlendir vextir hafa ekki áhrif á. Vaxtalækkun nú myndi hafa takmörkuð áhrif á framboðshlið hagkerfisins í bráð en háir vextir vinna hins vegar af fullum þunga á eftirspurnarhliðinni að því að draga úr verðbólgu og innlendri eftirspurn sem stuðla mun að bættu jafnvægi í þjóðarbúskapnum og lítilli verðbólgu.

Kostir Íslands í gengismálum

Ég hef nú gert grein fyrir ýmsum atriðum sem varða stefnu Seðlabanka Íslands í peningamálum. Eins og ég minnti á hefur Ísland ekki tekið þátt í samstarfi Evrópuþjóða í gengismálum. Í opinberri umræðu hér á landi er oft velt upp ýmsum kostum í gengismálum sem Ísland ætti að huga að. Rækileg grein var gerð fyrir þeim flestum í skýrslunni um Myntbandalagið sem Seðlabankinn gaf út 1997. Oft er nefnt að Íslendingar ættu að taka evru upp sem gjaldmiðil, annað hvort einhliða eða með einhvers konar samningum við eða aukaaðild að Myntbandalaginu. Ég vara mjög við því að menn einfaldi fyrir sér möguleika okkar í þessum efnum. Jafnvel þótt aukaaðild stæði til boða, sem ekki virðast líkur á, má gera því skóna að land sem áhuga hefði á slíku yrði að uppfylla skilyrði Maastricht-sáttmálans um aðild að Myntbandalaginu. Meðal þeirra er að verðbólga sé ekki meira en 1½% meiri en í þeim þremur Evrópusambandslöndum sem hafa minnsta verðbólgu, að í eitt ár séu meðalnafnvextir á langtímabréfum að hámarki 2% hærri en í þeim þremur löndum Evrópusambandsins sem hafa lægsta verðbólgu og að viðkomandi land hafi verið í gengissamstarfi Evrópu ERM í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka. Sýnilega munu Íslendingar ekki uppfylla þessi skilyrði í allra næstu framtíð. Einhvers konar aðild að Myntbandalaginu í framtíðinni losar Íslendinga því ekki undan því að ná verðbólgu niður á svipað stig og í viðskiptalöndum þjóðarinnar. Því má bæta við að jafnvel þótt þessi skilyrði væru uppfyllt er afar ólíklegt hægt yrði í fyrirsjáanlegri framtíð að semja um aukaaðild fyrir Ísland að Myntbandalagi Evrópu eða um annars konar tvíhliða samstarf við Myntbandalagið í gengismálum. Öll teikn hníga til annars hvað sem líður orðalagi í einstökum greinum Rómarsáttmálans og Maastricht-sáttmálans. Auk þess má nefna að tólf Austur-Evrópuþjóðir bíða inngöngu í Evrópusambandið og síðar þátttöku í Myntbandalaginu. Af hálfu Seðlabanka Evrópu og annarra í forystu Evrópubandalagsins hefur rík áhersla verið lögð á mikilvægi þess að þessar þjóðir uppfylli öll skilyrði til þátttöku í Myntbandalaginu. Því er mjög ólíklegt að fallist yrði á að veita nokkurt fordæmi sem þær kynnu að geta nýtt til þess að stytta sér leið inn í Myntbandalagið.

Íslendingar hafa valið að standa utan Evrópusambandsins og ekki lýst áhuga á aðild. Ef hugur þjóðarinnar stefndi til þess að taka evru upp sem gjaldmiðil væri nærtækast að ganga í Evrópusambandið með öllum skyldum og kostum sem því fylgja, þ.m.t. aðild að Myntbandalaginu. Ákvörðun um slíkt ræðst þó af fleiri þáttum en eingöngu varða gjaldmiðil þjóðarinnar og ferlið myndi taka allmörg ár. Það er auðvitað fyrst og fremst stór pólitísk spurning og því utan við efni þessa erindis. Við þurfum því að halda áfram að fóta okkur í alþjóðasamfélaginu sem þjóð með eigin gjaldmiðil sem við skilyrði frjálsra fjármagnshreyfinga krefst mjög agaðrar hagstjórnar.



Góðir áheyrendur.

Að mótun og uppbyggingu Efnahags- og myntbandalags Evrópu komu fulltrúar allra Evrópusambandslandanna. Þeir sköpuðu umgjörð um peningmálastjórn í Myntbandalaginu sem þeir töldu að best þjónaði þegnum bandalagslandanna. Þótt við stöndum utan Myntbandalagsins höfum við í peningamálastjórn okkar tileinkað okkur margt af því sem Evrópusambandsþjóðirnar urðu sammála um að þjónaði þeim best. Ég er sannfærður um að það mun verða okkur til góðs.

31. október 2001

Birgir Ísleifur Gunnarsson
Formaður bankastjórnar
Seðlabanka Íslands

 

Peningamál í Evrópusambandinu og á Íslandi

Ræða á ráðstefnu Útflutningsráðs, Euro Info skrifstofunnar á Íslandi og framkvæmdastjórnar ESB um efnið: Hefur Evran áhrif á Ísland'

Til baka