logo-for-printing

15. desember 1999

Bandarísk matsfyrirtæki staðfesta mat sitt á lánshæfi íslenska ríkisins

Bandarísku matsfyrirtækin Moody's Investors Service og Standard & Poor's hafa staðfest mat sitt á lánshæfi íslenska ríkisins. Síðdegis í gær gaf Moody's út frétt þessa efnis og Standard & Poor's í dag.

Mat Moody's Investors Service
Í yfirskrift fréttar Moody's segir að mikill hagvöxtur á Íslandi veki áhyggjur um ofhitnun í hagkerfinu. Í nýrri skýrslu um Ísland leggur fyrirtækið áherslu á að velheppnaðar skipulagsumbætur skjóti stoðum undir lánshæfismatið. Lánshæfiseinkunnir ríkisins eru Aa3 á langtímaskuldbindingum og P-1 á skammtímaskuldbindingum í erlendri mynt. Á skuldbindingum í krónum fær ríkið hæstu einkunnir sem eru Aaa og P-1. Styrking opinberra fjármála og aukið frelsi í efnahags- og fjármálalífi hafa laðað að umtalsvert erlent fjármagn og aukið fjölbreytni í gjaldeyrisöflun. Hefur þetta leitt til mikils hagvaxtar og tekjuaukningar. Moody's bendir hins vegar á að aukin umsvif í hagkerfinu skapi viðamikil viðfangsefni fyrir stjórnvöld þar sem hagvöxtur sé meiri en framleiðslugetan stendur undir. Moody's lýsir vaxandi áhyggjum af ofhitnun hagkerfisins sem endurspeglast í viðskiptahalla, útlánaþenslu og verðbólgu.

Í skýrslu Moody's er rakin viðleitni stjórnvalda til þess að minnka innlenda eftirspurn með því að hækka vexti og leyfa gengi krónunnar að hækka. Auk þess hafi ráðstafanir verið gerðar til að draga úr fjárfestingu hins opinbera á næsta ári. Þrátt fyrir þetta hafi hagvöxtur og þensla á vinnumarkaði undanfarin tvö ár leitt til verulegrar hækkunar raunlauna, einkum hjá hinu opinbera. Verðbólga hafi aukist úr 1-1,5% árin 1997 og 1998 í yfir 5% á þriðja ársfjórðungi 1999. Með tilliti til stöðu hagsveiflunnar telur Moody's að enn kunni nokkuð að skorta á að efnahagsstefnan sé nægilega aðhaldssöm til þess að hemja eftirspurn.

Moody's lýsir áhyggjum af að skorta muni á aðhald í launamálum, sérstaklega í komandi kjaraviðræðum. Bent er á að erlend skuldahlutföll hafa versnað þrátt fyrir að þjóðarframleiðsla og útflutningur hafi vaxið ört. Erlendar skuldir ríkissjóðs hafi minnkað en erlendar skuldir einkageirans og bankanna vaxið hratt og hraðar en þörf er á til að fjármagna mikinn viðskiptahalla við útlönd. Auk þess sé verulegur hluti skuldanna til skamms tíma. Á móti komi að vöxtur erlendra eigna innlendra stofnanafjárfesta vegi ríflega upp vöxt erlendra skulda þannig að hreinar erlendar skuldir séu minni nú en árið 1994.

Að mati Moody's eru horfur um lánshæfismat Íslands óbreyttar. Fyrirtækið mun þó fylgjast náið með væntanlegum kjarasamningum til að meta hvort stöðugleikanum verði ógnað af umframeftirspurn. Takist ekki að hemja launahækkanir í kjaraviðræðunum sem hefjast í febrúar kunni horfur um lánshæfismat að versna.

Mat Standard & Poor's
Standard & Poor's hefur staðfest óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins. Matið er A+ á langtímaskuldbindingum og A-1+ á skammtímaskuldbindingum í erlendri mynt. Einnig voru staðfestar jákvæðar horfur um hækkun lánshæfismatsins. Matið á innlendum skuldbindingum er AA+ og A-1+.

Standard & Poor's segir eftirfarandi atriði skjóta stoðum undir matið og jákvæðar horfur um hækkun þess:

· Staða opinberra fjármála er sterk. Aðhaldssöm fjármálastjórn og mikill hagvöxtur hafa leitt til þess að lítilsháttar afgangur hefur verið í rekstri hins opinbera síðan 1997, um 1,3% af vergri landsframleiðslu árið 1999, auk þess sem skuldir hins opinbera séu hóflegar - um 43% af vergri landsframleiðslu árið 1999.

· Skynsamleg hagstjórn hefur skapað hagfellt efnahagslegt umhverfi með lítilli verðbólgu, stöðugum gjaldmiðli, miklum hagvexti og þjóðartekjum á mann sem eru á meðal þeirra hæstu sem um getur af löndum sem hlotið hafa opinbert lánshæfismat.

· Langvarandi félagslegur og stjórnmálalegur stöðugleiki með breiðri þverpólitískri samstöðu um skynsamlega hagstjórn.

Að mati Standard & Poor's takmarkast lánshæfismat á skuldbindingum til langs tíma af eftirfarandi þáttum:

· Mikil erlend skuldabyrði og veik erlend lausafjárstaða. Hrein erlend skuldastaða sem svarar til 168% af útflutningi og erlend fjármögnunarþörf (reiknuð sem viðskiptahalli auk afborgana af erlendum langtímalánum og erlendra skammtímaskulda) sem svarar til 420% af gjaldeyrisvarasjóði er meiri en í öðrum löndum með lánshæfismatið A og AA. Þessi staða gæti skapað vanda ef skyndileg breyting yrði á trausti bankakerfisins eða viðskiptahallinn minnkaði ekki.

· Smæð hagkerfisins og hve opið það er og háð útflutningi sjávarafurða og áls gerir það viðkvæmt fyrir ytri áföllum þrátt fyrir bætta fiskveiðistjórnun og vaxandi fjölbreytni efnahagslífsins.

Hærra mat á skuldbindingum í innlendri mynt og óbreytt útlit endurspegla sterk tök stjórnvalda á peningakerfinu og skattheimtu.

Jákvæðar horfur um lánshæfismatið í erlendri mynt endurspegla þá skoðun Standard & Poor's að framhald skynsamlegrar hagstjórnar og skipulagsumbóta muni efla innviði hagkerfisins og fjárhagslega stöðu landsins og þar með gera því kleift að bregðast betur við ytri áföllum. Búist er við hækkun lánshæfismatsins á næstunni takist stjórnvöldum að hemja ofþenslu og draga úr viðskiptahalla sem leitt hefur til vaxandi erlendra skulda. Lánshæfi myndi einnig eflast ef traustum fjárhag hins opinbera væri viðhaldið yfir hagsveifluna og skipulagsumbótum haldið áfram, einkum einkavæðingu ríkisbankanna. Standard & Poor's segir hins vegar að mikil hækkun erlendra skulda, lausatök í opinberum fjármálum og/eða vandræði í bankakerfi myndu standa í vegi fyrir hækkun á lánshæfismatinu.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ísleifsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Frétt nr. 81/1999
15. desember 1999

 

Til baka