Beint á efnisyfirlit síðunnar

Seðlabanki Íslands hefur í langan tíma unnið að því að setja nýjan 10.000 kr. seðil í umferð. Seðlabankinn kynnti 10.000 kr. seðilinn fyrst á aðalfundi bankans vorið 2012 og í ársskýrslu bankans fyrir árið 2012 var greint frá undirbúningi útgáfunnar. Tilgangur 10.000 kr. seðilsins er að gera greiðslumiðlun á Íslandi liprari og hagkvæmari. Seðilinn er hannaður af Kristínu Þorkelsdóttur ásamt Stephen A. Fairbairn. 10.000 kr. seðillinn var settur í umferð fimmtudaginn 24. október.

 

    

 

Seðilinn og myndefni hans
Seðillinn er tileinkaður Fjölnismanninum Jónasi Hallgrímssyni. Í seðlinum má finna vísanir í störf Jónasar sem skálds, íslenskumanns, alþýðufræðara og náttúrufræðings. Stærð seðilsins er 70 x 162 millimetrar. Aðallitur er blár.

Á framhlið er mynd af Jónasi Hallgrímssyni, Háafjalli og Hraundranga. Á seðlinum eru Háafjall og Hraundrangi mótuð úr nýyrðum Jónasar, en hann var mikilvirkur nýyrðasmiður. Þessi nýyrði má finna á heimasíðu Seðlabankans. Mynstrið undir fjárhæð seðilsins er unnið út frá mynstursbekk á kápu tímaritsins Fjölnis. Mynstrið á öryggisborða er einnig unnið út frá mynstursbekk á kápu Fjölnis svo og borðar og mynstur á framhlið. Ljóðlínur eru úr kvæðinu Ferðalok og eru með rithönd Jónasar. Hæðarlínur fjallsins Skjaldbreiðs í fjarvíddarvörpun mynda grunnmynstur bak- og framhliðar.

Á bakhlið er blýantsteikning Jónasar af fjallinu Skjaldbreið frá áningarstað hans við Neðri-Brunna ásamt vetrarljósmynd af fönnum fjallsins. Hæðarlínum Skjaldbreiðs er varpað inn á myndina í fjarvíddarvörpun. Einnig eru þar myndir af lóum og hörpuskel. Ljóðlínur í rithönd Jónasar eru úr fyrsta erindi kvæðisins Fjallið Skjaldbreiður. Vitnað er til skreytis á kápu Fjölnis í öryggisborða og víðar.

Öryggisþættir og Optiks
Öryggisþættir 10.000 kr. seðilsins eru nær því sömu og annarra íslenskra seðla. Meginmunurinn felst þó í því að staðinn fyrir öryggisþráð og málmþynnur er kominn nýr öryggisþáttur sem heitir Optiks. Hann er í rauninni margvíður, því hann er samsettur af mörgum öryggisþáttum. Optiks er 18 millimetra breiður þráður með glugga. Á þræðinum má sjá síendurtekna blómamynd og textann „10000 KRÓNUR“ sem er sjáanlegur þegar seðillinn er borinn upp að ljósi. Þráðurinn samanstendur af tveimur sjálflýsandi borðum sem verða sjáanlegir undir útfjólubláu ljósi.


Öryggisþættir 10.000 kr. seðils
Fréttatilkynning nr. 31/2013 – Útgáfa 10.000 kr. seðils
Nýyrði Jónasar í 10.000 króna seðlinum (PDF-skjal)
Rammagrein um nýjan 10.000 kr. seðil (Fjármálainnviðir 25. september 2013)
Auglýsing í Stjórnartíðindi
Fréttatilkynning nr. 36/2013 - Nýr tíu þúsund króna seðill settur í umferð í dag
Ræða seðlabankastjóra við útgáfu tíu þúsund króna seðilsins (pdf)