Kerfisáhættunefnd

Kerfisáhættunefnd starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð en nefndin undirbýr greiningu og tillögur í samræmi við 4. gr. laga um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014.

Hlutverk kerfisáhættunefndar er að leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika og skila í kjölfarið tillögum til fjármálastöðugleikaráðs. Nefndin kemur saman til fundar að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar telji einhver nefndarmanna þörf á. Nefndin setur sér starfsreglur sem fjármálastöðugleikaráð staðfestir, starfsreglurnar eru aðgengilegar hér: Starfsreglur fyrir kerfisáhættunefnd samkvæmd lögum nr. 66/2014

Í kerfisáhættunefnd sitja fimm einstaklingar með atkvæðisrétt

  • Seðlabankastjóri, sem er formaður nefndarinnar
  • forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem er varaformaður
  • aðstoðarseðlabankastjóri
  • aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins
  • einn sérfræðingur í málefnum fjármálamarkaðar eða hagfræði sem ráðherra skipar án tilnefningar til fimm ára í senn.

Ráðuneytisstjóri, eða tilnefndur embættismaður ráðuneytisins, á sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Einnig sitja framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Ísland og framkvæmdastjóri greiningasviðs Fjármálaeftirlitsins fundi með málfrelsi. Falli atkvæði jöfn á fundum nefndarinnar ræður atkvæði formanns.

Nánari upplýsingar um skipan, hlutverk og verkefni kerfisáhættunefndar má finna í lögum um fjármálastöðugleikaráð

Umsýsla nefndarinnar er á hendi Seðlabanka Íslands sem vistar nefndina og sér um skráningu og skjölun.

Fyrsti fundur kerfisáhættunefndar var haldinn í Seðlabanka Íslands 2. október 2014 og var meðfylgjandi mynd tekin af nefndinni og öðrum fundarmönnum við það tækifæri.

Á myndinni eru talið frá vinstri: Harpa Jónsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, ritari nefndarinnar, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika og sérfræðingur frá Seðlabanka Íslands, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður kerfisáhættunefndar, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og varaformaður kerfisáhættunefndar, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Björn Rúnar Guðmundsson, sérfræðingur skipaður af ráðherra án tilnefningar og Lilja Rut Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri greininga hjá Fjármálaeftirlitinu og sérfræðingur frá FME