Fjármálakerfið

Fjármálastöðugleikasvið fylgist með þróun fjármálakerfisins bæði hér á landi og erlendis, styrk þess og skilvirkni og áhrifum efnahagslegra þátta á kerfið í heild sinni. Starfsemi seðlabanka á þessu sviði er frábrugðin hefðbundnu fjármálaeftirliti að því leyti að í stað þess að fylgjast fyrst og fremst með stöðu einstakra fjármálastofnana er áhersla lögð á þætti sem kynnu að fela í sér hættu fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Í því skyni að stuðla að traustum undirstöðum og heilbrigði fjármálakerfisins hafa Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið gert með sér samstarfssamning, sjá hann og aðra samninga hér: Samningar og samstarf.

Staðan og helstu áhættuþættir

12. október 2016

Efnahagsleg skilyrði eru í meginatriðum hagstæð

Hagvöxtur er þróttmikill og er eins og á síðustu árum aðallega drifinn áfram af vexti bæði útflutnings- og ráðstöfunartekna ásamt bættum efnahag heimila og fyrirtækja. Auknar tekjur af ferðamönnum og hagstæð viðskiptakjör hafa stuðlað að viðvarandi myndarlegum við­ skiptaafgangi. Afgangurinn hefur ásamt nýfjárfestingu leitt til gjaldeyrisinnstreymis og því hefur gengi krónunnar hækkaði um 11,6% á fyrstu níu mánuðum ársins þrátt fyrir 290 ma.kr. kaup Seðlabankans á gjaldeyri. Gjaldeyrisforðinn er að mati Seðlabankans nægjanlegur til að styðja við almenna losun fjármagnshafta en mikilvæg skref hafa þegar verið stigin á þessu ári. Matsfyrirtækið Moody‘s hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um tvö þrep í byrjun september, úr Baa2 í A3. Hækkunin var meðal annars rökstudd með því að skref að losun fjármagnshaftanna hafi heppnast vel og skuldir ríkissjóðs lækkað. Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins námu um mitt ár rúmlega 1% af landsframleiðslu og hefur erlend staða þjóðarbúsins ekki verið betri í hálfa öld. Samhliða hefur álag á vexti ríkisskuldabréfa í erlendum gjaldmiðlum lækkað.

Skuldsetning heimila og fyrirtækja heldur áfram að lækka

Skuldsetning heimila og fyrirtækja er nú lítil í sögulegu samhengi, bæði í hlutfalli við tekjur og landsframleiðslu. Með minni skuldsetningu og bættri eignastöðu eru heimili og fyrirtæki í betri stöðu til að mæta áföllum en þau hafa verið í um langt skeið. Vísitala kaupmáttar launa hefur hækkað um 10% síðustu 12 mánuði sem ásamt viðvarandi hagvexti og sterkara gengi styðja við þessa þróun.

Mikilvæg skref tekin að losun fjármagnshafta

Mikilvæg skref hafa verið tekin að losun fjármagnshafta á síðastliðnum mánuðum. Í maí samþykkti Alþingi lög um meðferð aflandskróna. Í þeim fólust breytingar sem ætlað er tryggja að þær sérstöku takmarkanir sem aflandskrónur hafa verið háðar undir fjármagnshöftum haldi þótt stór skref verði stigin til að losa höft á einstaklinga og fyrirtæki. Í júní hélt Seðlabanki Íslands síðan gjaldeyrisútboð þar sem aflandskrónueigendum gafst kostur á að skipta krónum í evrur áður en almenn losun fjármagnshafta hæfist. Flestum tilboðum var tekið en fáeinir stórir aðilar buðu hærra gengi en Seðlabankinn gat fallist á. Stofn aflandskróna lækkaði um fjórðung. Þá setti Seðlabankinn í sumar reglur um bindingu reiðufjár vegna innstreymis erlends gjaldeyris og dró í kjölfarið úr nýfjárfestingu í ríkisskuldabréfum sem kann að vera hvikult fjárstreymi. Með samþykkt lagafrumvarps í október hefur að mestu leyti verið losað um höft á einstaklinga og fyrirtæki.

Eiginfjár- og lausafjárstaða bankanna sterk

Bankarnir standa nokkuð traustum fótum. Samanlagt eiginfjárhlutfall þeirra nam 28,5% í lok júní og hafði hækkað lítillega frá áramótum. Kröfur um eigið fé bankanna hafa hækkað með hækkun sveiflujöfnunaraukans um 0,25 prósentur í 1,25% í takt við uppgang fjármálasveiflunnar. Stóru viðskiptabankarnir voru gerðir upp með töluverðum hagnaði á fyrri árshelmingi 2016. Hagnaður dróst þó saman á milli ára einkum vegna minni tekna af óreglulegum liðum en hreinar vaxtatekjur jukust á milli ára. Tekjur af óreglulegum liðum eru þó enn fyrirferðarmiklar eða um 20% af heildartekjum á fyrri árshelmingi. Dregið hefur úr útlánaáhættu samfara bættri skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Kjör bankanna á erlendri markaðsfjármögnun hafa batnað verulega á síðastliðnum mánuðum auk þess sem aðgengi þeirra hefur aukist enn frekar með hækkandi lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Lausafjárhlutföll bankanna hafa hækkað á árinu og álagspróf á lausafjárstöðu þeirra, í tengslum við næstu skref í losun fjármagnshafta, sýna að þeir geta mætt töluverðu útflæði.

Áhætta gæti verið að byggjast upp einkum á fasteignamarkaði…

Ákveðin merki eru um spennu í þjóðarbúskapnum, einkum á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði, sem gæti ýtt undir fjármálalegt ójafnvægi til lengri tíma litið. Fasteignaverð hefur haldið áfram að hækka á árinu. Í ágúst var raunverð íbúða 12,1% hærra en árið áður og tólf mánaða hækkun þess hefur mælst yfir 5% nánast samfleytt í tvö og hálft ár. Árshækkun raunverðs atvinnuhúsnæðis á höfuð­ borgarsvæðinu var 14,3% á öðrum ársfjórðungi og hefur verið yfir 9% í rúm tvö ár. Raunverð íbúðarhúsnæðis er enn hæst miðsvæðis í Reykjavík en undanfarið hefur það hækkað hraðast í hverfum lengra frá miðborginni.

… en skilyrði eru til áframhaldandi útlánavaxtar…

Útlánavöxtur er enn hóflegur og undir hagvexti. Hins vegar hefur framleiðsluspenna aukist og atvinnuleysi minnkað og næstum helmingur stjórnenda fyrirtækja segist búa við skort á vinnuafli. Auk þess eykur hækkandi eignaverð veðrými á efnahagsreikningum heimila og fyrirtækja en hækkandi fasteignaverð er gjarnan undanfari útlánavaxtar. Skilyrði eru því til staðar fyrir útlánavöxt til heimila og fyrirtækja. Að frátalinni breytingu á útlánastofninum vegna verðlags og gengisbreytinga hefur eftirspurn eftir nýjum lánum aukist, en meira hjá fyrirtækjum en heimilum.

… og uppgangurinn kann að vera brothættur

Tekjur tengdar erlendum ferðamönnum hafa aukist hratt sl. þrjú ár og eru mikilvægur þáttur í þeirri hagsæld sem hefur skapast hér á landi. Fylgjast þarf með áhættu sem felst í örum vexti ferðaþjónustunnar. Dragi verulega úr komum ferðamanna gæti orðið efnahagssamdráttur, atvinnuleysi aukist og eignaverð lækkað. Það gæti leitt til taprekstrar bankanna, ekki síst vegna aukins útlánataps. Framangreind þróun er grunnur að sviðsmynd álagsprófs Seðlabankans 2016 fyrir stóru viðkiptabankana. Að gefnum forsendum álagsprófsins gæti eiginfjárhlutfall bankanna lækkað um tæpar 4 prósentur frá áramótastöðu 2015. Það yrði þó eftir sem áður vel yfir formlegum eiginfjárkröfum.

Skilyrði fyrir losun fjármagnshafta eru góð en henni fylgir þó einhver óvissa

Fyrirhuguð losun fjármagnshafta er til þess fallin að draga úr ójafnvægi og kostnaði sem hlýst af því að hafa höft til lengri tíma. Stór gjaldeyrisforði, góð þjóðhagsleg skilyrði og sterk lausafjárstaða bankanna draga úr áhættu við losun fjármagnshafta, sem óhjákvæmilega fylgir nokkur óvissa.

Bættur aðgangur að hagkvæmri erlendri lánsfjármögnun dregur úr áhættu til skamms tíma en getur ýtt undir áhættusækni síðar

Betri aðgangur innlendra banka að erlendum fjármagnsmörkuðum dregur ásamt öðru úr áhættu við losun fjármagnshafta og endurspeglar tiltölulega sterka stöðu bankanna. Með hagstæðri erlendri lánsfjármögnun geta bankarnir veitt gjaldeyrislán á betri kjörum en áður. Um 20% útlána innlánsstofnana eru nú í erlendum gjaldmiðlum. Sé tekið tillit til gengishækkunar krónunnar var vöxtur lána innlánsstofnana í erlendum gjaldmiðlum til fyrirtækja í lok júní rúm 13% á milli ára. Til lengri tíma litið getur greiður aðgangur að erlendu lánsfé aukið áhættusækni. Mikilvægt er að heimildir séu til staðar til að takmarka lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum til heimila og fyrirtækja sem eru óvarin fyrir gjaldeyrisáhættu. Verði slík lán veitt í ríkum mæli getur það grafið undan stöðugleika fjármálakerfisins.