Beint á efnisyfirlit síðunnar

Eitt meginhlutverka Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu, öruggu og virku fjármálakerfi. Í fjármálastöðugleika felst að fjármálakerfið geti staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, tryggt fjármagn, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti. Heilbrigt fjármálakerfi er nauðsynleg forsenda stöðugleika og hagvaxtar og virkrar stefnu í peningamálum. 


Fjármálastöðugleikasvið Seðlabanka Íslands rannsakar og greinir reglulega áhættur sem raskað gætu stöðugleika íslenska fjármálakerfisins, með það að markmiði að koma auga á veikleika sem gætu leitt til alvarlegra áfalla. Tvisvar á ári er framkvæmd ítarleg úttekt á þjóðhagslegu umhverfi, fjármálamörkuðum, fjármálastofnunum og greiðslukerfum. Úttekt Seðlabankans á fjármálastöðugleika á Íslandi er birt í ritinu Fjármálastöðugleiki (sjá Útgefið efni).

Tilgangur ritsins um fjármálastöðugleika er:

  • að stuðla að upplýstri umræðu um stöðugleika fjármálakerfisins, þ.e. um styrk þess og veikleika, áhættu sem því kann að vera búin, bæði af þjóðhagslegum og rekstarlegum toga, og viðleitni til að efla viðnámsþrótt þess
  • að greining Seðlabankans nýtist þátttakendum á fjármálamarkaði við stýringu á áhættu
  • að stuðla að markvissri vinnu og viðbúnaði Seðlabankans
  • að skýra hvernig Seðlabankinn vinnur að þeim verkefnum sem honum eru falin í lögum og varða virkt og öruggt fjármálakerfi.

Fjármálastöðugleikasvið fylgist með þróun fjármálakerfisins bæði hér á landi og erlendis, styrk þess og skilvirkni og áhrifum efnahagslegra þátta á kerfið í heild sinni. Starfsemi seðlabanka á þessu sviði er frábrugðin hefðbundnu fjármálaeftirliti að því leyti að í stað þess að fylgjast fyrst og fremst með stöðu einstakra fjármálastofnana er áhersla lögð á þætti sem kynnu að fela í sér hættu fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Í því skyni að stuðla að traustum undirstöðum og heilbrigði fjármálakerfisins eiga Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið með sér náið samstarf (sjá Samningar og samstarf).